Charity Center


 
 

 

 

Velkomin á heimasíðu Hugarfars

Félagið var stofnað 21. febrúar 2007 af sjúklingum, aðstandendum og fagaðilum frá Fagráði um heilaskaða á Reykjalundi. Strax í upphafi fundum við fyrir miklum áhuga og þörf fyrir svona félag og var vel mætt á stofnfundinn sem haldinn var í sal ÖBÍ að Hátúni 10.

Innsæisleysi er oft helsta vandamálið. Það er sjaldan sem fólk með heilaskaða hefur frumkvæði að því að leita sér hjálpar. Ástæðan er yfirleitt sú að heilaskaðinn sviptir þessa einstaklinga innsæi, þannig að þeir sjá ekki vandamálin, það skortir dómgreind til að tengja saman orsök og afleiðingar og minnisskerðing hamlar þeim að læra af reynslunni.

Meginmarkmið Hugarfars er að vinna að því að fólk með heilaskaða og aðstandendur þeirra fái alla aðstoð og leiðbeiningar sem þeir þurfa frá opinberum aðilum, félagslega og annan viðeigandi stuðning, að einstaklingar með heilaskaða fái alla þá meðhöndlun og endurhæfingu sem þeir þurfa hver fyrir sig. Einnig mun félagið beita sér fyrir upplýsingagjöf varðandi áunninn heilaskaða. Allar frekari upplýsingar um markmið félagsins er að finna í lögum Hugarfars hér á heimasíðunni.

Hugarfar er aðili að Öryrkjabandalagi Íslands og Evrópusambandi fólks með heilaskaða BIF. Verður þetta okkur til framdráttar en það er mikið sem við getum lært af Evrópuþjóðunum um bætur og úrræði í málefnum fólks með heilaskaða. Nágrannalönd okkar eru u.þ.b. 20 árum á undan Íslandi í úrræðum fyrir fólk með heilaskaða og aðstandendur þeirra og höfum við í stjórn Hugarfars fullan hug á að minnka þetta bil.

 

Hugarfar bæklingur pdf

Hér má sjá bækling Hugarfars