Heilaskaði - einkenni og ráðleggingar. Fyrir almenning III
Þessi blöðungur er viðleitni til að auka skilning á vitrænum truflunum í kjölfar heilaskaða og veita leiðbeiningar og bjargráð sem eru nýtileg einstaklingum með heilaskaða og þeirra nánustu. Það getur verið að ráðleggingar þessar örvi fólk til að finna eigin lausnir sem er vel. Kannski virka bjargráðin ekki alltaf og getur ástæðan verið að hver einstaklingur er sérstakur sem og aðstæður hans.
Heilaskaði getur truflað einbeitingu, athygli, skynjun, rökhyggju, skipulag og úrlausn vandamála, tal og mál, hreyfistjórnun og tilfinningar. Á þessum blöðungi eru skráð vandamál og einkenni sem þeim fylgja. Síðan fylgja ráðleggingar eða dæmi um hvað skal gera við ákveðnar aðstæður. Ef viðkomandi einstaklingur með heilaskaða hefur sértæk einkenni er mikilvægt að skrá þau og samfara skrá ráðleggingar frá meðferðaraðilum sem þekkja viðkomandi.
Þreyta. Þreyta er algeng í endurbata í kjölfar heilaskaða. Ástæða þreytu getur verið bein afleiðing heilaskemmdar eða samfara aukin orkuþörf sem krefst í verkefnavinnu sem áður voru gerð án umhugsunar. Þreyta getur haft neikvæð áhrif á líkamlega getu, athygli og einbeitingu, minni og samskipti. Þreytan er mjög áberandi fyrst eftir heilaskaðann og sérstaklega er fólk kemur heim af sjúkrahúsinu. Það tímabil getur verið erfitt, fólki finnst endurbati oft hægur, kannski er breytt hlutverkaskipan eða einstaklingur með heilaskaða gerir of miklar kröfur til sín og væntingarnar verða of miklar. Að átta sig á þessum þáttum er eitt skref í endurbataferlinu. Með tímanum eykst úthald viðkomandi og orka og geta til þátttöku í daglegu lífi eykst.
- • Um helmingur fólks með heilaskaða þjáist enn af mikilli þreytu um 2 árum eftir skaða
Eftirfarandi ráðleggingar geta minnkað þreytu:
- Nota minnisbók eða dagatal
- Setja hvíldir/lúra (ekki lengur en 30mín) í dagsskipulagið
- Forðast að leggja sig á kvöldin
- Auka tímalengd verkefna smám saman og þannig auka úthald
- Yfirfara virkni vikulega/mánaðarlega
- Byrja á einföldum verkefnum sem hægt er að ljúka án þreytu
- · Smám saman sinna flóknari verkefnum með hvíldum og síðan minnka hvíld
- · Einstaklingur læri að þekkja einkenni eigin þreytu
- · Þekkja afleiðingar þreytu svo sem minnkuð athygli og einbeitingarskortur, endurtekningar, pirringur eða aukning í mistökum
- · Taka hvíld á 5 mín. fresti í verkefnavinnu, áður en eða þegar þreyta kemur
- · Ef mælt er með af fagfólki nota þá hjálpartæki
- · Skipuleggja fyrirfram þreytuvaldandi atburði svo sem heimsókn, ferðalög eða búðarferð
- · Setja inn hvíld fyrir heimsókn
- Hugleiða að takamarka tíma heimsóknar, eða hvíla sig á meðan á heimsókn stendur
Skerðingar á minni eru algengustu vandamál sem fólk kvartar undan sem hlotið hefur heilaskaða þó að eðli og stig skerðingar geti verið talsvert mismunandi á milli einstaklinga. Það eru mörg svæði í heila sem tengjast getu okkar til að leggja á minnið (vista upplýsingar), geyma upplýsingar í minninu (geymsla) sem og sækja þaðan upplýsingar þegar við þurfum á þeim að halda (endurheimt upplýsinga). Mörg þessara svæða eru viðkvæm fyrir skaða á heila eins og í kjölfar slyss eða veikinda.
Hægt er að skipta minni upp í margskonar mismunandi flokka, bæði eftir eiginleikum minnis sem og eftir hvar í heila minnisstöðin er.
Yfir daginn þá berast skynfærum okkar fjöldi áreita. Þessi áreiti stoppa í skynminni okkar í nokkrar sekúndur eða sekúndubrot. Ef við veitum þeim hinsvegar athygli þá fara þessi atriði/upplýsingar yfir í skammtímaminni (vinnsluminni) og geta staldrað við þar í nokkrar sekúndur upp undir tæpa klukkustund. Það sem heilinn telur þess virði að geyma fer svo inn í langtímaminnið og þá geta upplýsingarnar verið þar allt frá nokkrum klukkustundum upp í það sem eftir lifir af ævi einstaklingsins.
Hægt er að flokka minni eftir því hvar í heila upplýsingarnar eru geymdar:
Vinstra heilablað - heyrnrænt minni
- muna nöfn, orð, hvað á að gera
Hægra heilablað - sjónrænt minni
- muna hvar hlutir eru staðsettir, hvernig á að rata, andlit
Hægt er að flokka minni eftir innihaldi/eðli þess sem á að muna:
· Merkingarminni:
Það nær yfir ýmsar staðreyndir sem við geymum í minni, t.d. eins og að: “Reykjavík er höfuðborg Íslands”“Ingólfur Arnarson nam Ísland”
“Aðfangadagur jóla er 24. desember”
· Atburðarminni:
Persónuleg upplifun af einhverjum atburðum – geta verið minningar um stund, stað og líðan varðandi eitthvað.“Ég fór á kaffihús í Reykjavík í gær og hitti þar gamla skólafélaga” “Þegar ég fann síðasta Suðurlandsskjálfta koma var ég staddur á 17. Júní hátíð í Mosfellsbæ”
· Ómeðvitað minni:
Hæfileikar/geta sem við höfum aflað og getum notað aftur án þess að þurfa að rifja upp nákvæmlega hvernig við gerum hlutinn. Dæmi um þetta er að geta hjólað á reiðhjóli, synda eða spila á píanó.
“Ég man oft ekki einföld atriði eins og að finna til nesti handa börnunum í skólann“
„Ég gleymi að mæta í bókaðan tíma hjá lækni”
Einbeitingarúthald
Skilningur er fyrir hendi en erfiðlega gengur að halda einbeitingu yfir lengri tíma að því sama.
- „hugurinn fer á flakk þegar ég reyni að lesa”
- „ég get ekki horft á heila bíómynd til enda”
- „í samtali lendi ég oft í að gleyma því sem ég ætlaði að segja“
Viljastýrð einbeiting
Það er jafnmikilvægt að geta leitt hjá sér eða síað í burtu umhverfisáreiti eða truflanir eins og það að geta einbeitt sér. Þessi hæfileiki er kallaður viljastýrð einbeiting eða einbeiting sem lýtur stjórn viljans.
Viðkomandi velur þannig það sem hann vill beina athyglinni að og hirðir ekki um annað.
Aðstæður geta valdið því að þessi hæfileiki minnkar svo viðkomandi á í erfiðleikum með að sporna gegn innri eða ytri truflunum (hlutum, hljóðum, eigin hugsunum).
Þegar við erum að versla er ys og þys í versluninni. Þegar við erum að læra getur verið kveikt á útvarpi í einhverju nálægu herbergi.
- „ég get ekki einbeitt mér að verkefnum ef það er hávaði í kringum mig”
- „ég get ekki fylgst með því sem einhver er að segja í margmenni, t.d. í veislu eða á kaffihúsi”
- „ég enda oft í að gera eitthvað annað en ég byrjaði á – t.d. þegar ætla að taka til“
Margskipt einbeiting
Erfiðleikar við tvískipta einbeitingu koma fram þegar viðkomandi á erfitt með að vinna við tvennt í einu. Við erum oft í þeirri stöðu að verða að gera margt í einu – eins og
t.d. að aka bíl og tala, tala í símann og skrifa niður skilaboð, vinna með eitthvert tæki og hlusta samtímis á leiðbeiningar.
Undir slíkum kringumstæðum verðum við að deila einbeitingunni á milli hinna mismunandi upplýsinga. Þetta er hvað erfiðasta form einbeitingar og í kjölfar heilaskaða eiga margir erfitt með verk sem krefjast tvískiptrar einbeitingar.
- „ég get ekki einbeitt mér að akstrinum og haldið uppi samræðum”
- „ég get ekki náð því sem kennarinn er að segja ef ég er að skrifa glósur ”
- „ég get ekki einbeitt mér að matseldinni ef einhver fer að tala við mig – og svo gleymi ég oft að setja kartöflur upp á réttum tíma ef ég er að einbeita mér að steikinni“
M.a. byggt á: Understanding Brain Injury A Guide for the Family, Mayo Clinic, 2008
Ólöf H Bjarnadóttir, tauga- og endurhæfingarlæknir,
Smári Pálsson, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði
Október 2017