Lög félagsins

 

1. gr

Nafn félagsins er Hugarfar. Félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda og áhugafólks um málefnið. Varnarþing félagsins er í Reykjavík.

 

2. gr

Markmið félagsins eru:

 

1.   að vinna að því að halda utan um upplýsingar og miðla þeim.

2.   að taka þátt í samstarfi á breiðum grundvelli um ákominn heilaskaða hér á landi sem erlendis.

3.   að vera í samstarfi við Fagráð um heilaskaða.

 

3. gr

Félagið er opið öllum er vilja vinna að markmiðum þess. Árgjald félagsmanna er ákveðið á aðalfundi.

 

4. gr

Stjórn félagsins skal skipuð að lágmarki 3 einstaklingum og að hámarki 5. Meðal stjórnarmanna skulu þrjú hlutverk skilgreind:

1.       formaður stjórnar

2.       varaformaður og ritari

3.       gjaldkeri

Aðrir stjórnarmenn gegna hlutverki meðstjórnenda ellegar hafa skilgreind hlutverk. 

Fagráð um heilaskaða skipar einn tengilið við stjórn og annan sem varamann.

Stjórnin er skipuð til tveggja ára í senn. Formaður og einn stjórnarmaður eru kosnir annað hvert ár en hitt árið er einn stjórnarmaður kosinn.

Stjórnin skiptir með sér verkum þannig:

Formaður er málsvari félagsins, boðar til stjórnarfunda og sinnir málefnum félagsins á milli funda.

Ritari/varaformaður ritar fundargerðir, bréf og varðveitir lög félagsins, auk formannsstarfa við forföll formanns.

Gjaldkeri sér um fjármál félagsins og heldur utan um félagatal.  

Tengiliður Fagráðs um heilaskaða tryggir samráð á milli stjórnar og Fagráðs um heilaskaða.

Reikningar skulu skoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

 

5. gr

Aðalfundur er æðsta ákvörðunarvald í málefnum félagsins. Hann skal halda fyrir lok apríl ár hvert og til hans boðað með tveggja vikna fyrirvara á heimasíðu félagsins. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum. Rétt til að greiða atkvæði á aðalfundi hafa skuldlausir félagsmenn.

 

Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

 

Kosning fundarstjóra

Skýrsla stjórnar

Reikningar félagsins

Lagabreytingar

Kosningar í stjórn

Félagsgjöld

Önnur mál

 

6. gr

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Breytingartillögur skulu hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar í fundarboði á heimasíðu félagsins. Nái tillaga um lagabreytingar fram þarf samþykki 2/3 hluta fundarmanna svo  hún taki gildi.

 

 

7. gr

Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Endurskoðaðir ársreikningar skulu lagðir fyrir aðalfund ár hvert.

 

8. gr

Tekjum félagsins af félagsgjöldum, fjáröflun og gjafafé skal varið til reksturs félagsins og til stuðnings aðila (innan félagsins) sem hyggjast sækja ráðstefnur, fundi eða námskeið um málefni er varða hag félagsins/félagsmanna, hér á landi sem erlendis.

 

9. gr

Meirihluti stjórnar ritar félagið fullkominni ritun. Stjórn félagsins getur veitt formanni eða öðrum prókúruumboð. Allar meiriháttar ákvarðanir sem skuldbinda félagið fjárhagslega til framtíðar skulu lagðar undir félagsfund.  Fjárveitingar er nema kr. 250.000,- eða meira skulu ræddar og hljóta samþykki meirihluta stjórnar.

 

10. gr

Stjórnin ber ábyrgð á útgáfustarfsemi félagsins, þar með talið efni á heimasíðu.

 

11. gr

Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða atkvæðisbærra fundarmanna. Eignir þær er kunna að vera til staðar skulu geymdar á vaxtaaukabók (eða annarri bók með góðri ávöxtun) í  banka í 5 ár. Eftir þann tíma má ráðstafa eignum félagins til sambærilegs félags og ákvörðun um það tekin af þeirri stjórn sem síðast sat.

 

Gildir frá 27. mars 2014.